Óskabein kaupir fjórðungshlut í Endor

Stefna á markaði í Skandinavíu og Norður- Evrópu

Fjárfestingfélagið Óskabein, sem meðal annars á stóran hlut í VÍS, hefur gengið frá kaupum á fjórðungshlut í Endor. Fjárfestingin er liður í uppbyggingu Endor sem alþjóðlegs félags, en eigendur og stjórnendur stefna á markaði í Skandinavíu og Norður- Evrópu á komandi misserum.

Endor er ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í að hámarka rekstrarhagkvæmni fjárfestinga í upplýsingatækni og nýtir til þess nýjustu tækni í sjálfvirknivæðingu, ásamt því að vinna með virtum samstarfsaðilum víða um heim.

Stofnendur Endor og lykilstjórnendur hafa mikla þekkingu á alþjóðlegum upplýsingatæknimarkaði en framkvæmdastjóri félagsins er Gunnar Guðjónsson, sem áður var meðal annars forstjóri Opinna Kerfa. Vöxtur Endor hefur verið hraður frá stofnun árið 2015 og vinnur félagið nú með fjölbreyttum hópi viðskiptavina. Má þar nefna Íslandsbanka, RÚV, Ölgerðina, Íslandshótel og DK hugbúnaðarhús.  Stærsti einstaki viðskiptavinur Endor er franski upplýsingatæknirisinn ATOS, sem meðal annars gegnir lykilhlutverki varðandi upplýsingatæknimál Ólympíuleikanna.

Óskabein ehf. er í eigu Andra Gunnarssonar, Engilberts Hafsteinssonar, Fannars Ólafssonar, Gests Breiðfjörðs Gestssonar og Sigurðar Gísla Björnssonar og er meðal annars einn stærsti einstaki eigandi Vátryggingafélags Íslands (VÍS). Markmiðið með kaupunum er að fjármagna frekari vöxt Endor og nýta þekkingu starfsmanna til sóknar með sérhæft lausnamengi inn á nýja markaði erlendis. Engilbert og Fannar taka sæti í stjórn Endor.

Gunnar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Endor: „Það er fagnaðarefni fyrir ungt félag að fá öfluga fjárfesta í ferðalagið. Tekjur Endor hafa aukist tífalt árlega síðustu ár og útlit er fyrir sama vöxt í ár. Viðtökur við áherslum okkar hafa verið frábærar og verkefnastaða er sterk hérlendis. Félagið hefur verið í spennandi verkefnum erlendis svo aðkoma Óskabeina að félaginu styður einstaklega vel við framhaldið“.

Fannar Ólafsson, nýr stjórnarmaður í Endor og einn af eigendum Óskabeins: „Vöxtur Endor ár frá ári hefur verið gríðarlegur, enda eru starfsmenn og stjórnendur félagsins þungaviktarmenn í greininni. Við teljum þetta rétta tímann til að taka næsta skref með félagið og mun þessi fjárfesting auðvelda félaginu að sækja á nýja markaði og vaxa“.

Fannar Ólafsson frá Óskabeini og Gunnar Guðjónsson framkvæmdastjóri Endor

Endor ehf.

Eyravegur 37

800 Selfoss

512 4600