Innleiðir ofurtölvu í samstarfi við þýsk háskólasamtök
Íslenska upplýsingatæknifyrirtækið Endor hefur, í samstarfi við franska upplýsingatæknirisann Atos, gert samning við HLRN samtökin, sem er samstarf sjö af helstu tækniháskólum Þýskalands, um afhendingu og innleiðingu einnar öflugustu ofurtölvu Þýskalands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Endor.
Verkefnið er þegar farið af stað í Tækniháskólanum í Berlín og munu fleiri skólar bætast við í framhaldinu. Endor er einnig að undirbúa starfsemi í Þýskalandi undir nafninu EC Germany GmbH og verður reksturinn alfarið í eigu Endor á Íslandi.
„Stofnun EC Germany GmbH er skref í uppbyggingu Endor sem alþjóðlegs upplýsingatæknifyrirtækis, en félagið gerði samning við Atos um afhendingu á ofurtölvureiknigetu til þýska bílaframleiðandans BMW árið 2017 og er samningurinn gríðarlega umfangsmikill. Með opnun skrifstofu í Þýskalandi eflir Endor þjónustu sína við viðskiptavini í Þýskalandi og Austurríki,“ segir í fréttatilkynningunni.
„Það er mjög stórt skref fyrir Endor að setja upp starfsemi í Þýskalandi. Þjónustan sem Endor veitir er mjög sérhæfð og það er mikil eftirspurn eftir aðkomu okkar í mismunandi ofurtölvutengd verkefni, hvort sem það er ráðgjöf, innleiðingar, rekstur eða heildarlausn eins og fyrir BMW,“ er haft eftir Gunnari Guðjónssyni framkvæmdarstjóra Endor. Hann bætir við:
„Við sjáum mikil tækifæri hjá alþjóðlegum stórfyrirtækjum og opinberum stofnunum í þjónustu við ofurtölvur og teljum þetta réttan tímapunkt til þess að færa okkur nær okkar viðskiptavinum á þessu svæði með opnum skrifstofu. Við opnuðum einnig nýlega skrifstofu í Svíþjóð og erum með opnun skrifstofu í Noregi á teikniborðinu.”
Endor er ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í að hámarka rekstrarhagkvæmni fjárfestinga í upplýsingatækni og nýtir til þess meðal annars nýjustu tækni í sjálfvirknivæðingu. Sýn gekk fyrr í sumar frá kaupum á Endor með fyrirvörum um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki eftirlitsaðila. Búist er við að kaupin verði samþykkt á næstu vikum.

Gunnar Guðjónsson framkvæmdastjóri Endor.