Endor samstarfsaðili ársins hjá Lenovo í Evrópu

Endor var á dögunum valið samstarfsaðili ársins hjá Lenovo Data Center Group (DCG) í Evrópu. Verðlaunin voru veitt á ráðstefnu samstarfsaðila Lenovo í Barcelona fyrir framúrskarandi árangur á flóknum og krefjandi innleiðingum á ofurtölvulausnum. Endor er viðurkenndur samstarfsaðili Lenovo, en Lenovo er einn umfangmesti aðilinn í sölu og þjónustu á innviðum fyrir gagnavers- og ofurtölvulausnir í heiminum. Endor hefur afhent Lenovo netþjóna og þjónustu í þeim verkefnum sem það hefur komið að, bæði hér heima og erlendis.

Árið 2017 gerði Endor, í samstarfi við franska upplýsingatæknirisann Atos, stóran langtímasamning um afhendingu á ofurtölvureikniafli til þýska bílaframleiðandans BMW. Í því verkefni hafa þegar verið afhentir um 3500 Lenovo netþjónar á Íslandi, í Svíþjóð og Þýskalandi. Reiknigeta þeirra er um 7 Petaflop sem samsvarar reiknigetu um 300.000 fartölva. Til gamans má geta að raforkuþörf netþjóna í þessu afmarkaða verkefni er um tvö megawött sem er svipuð og meðalnotkun yfir 1.000 heimila. Á næsta ári er áætlað að þetta verkefni geti vaxið verulega í umfangi eða um 5 Petaflop til viðbótar.

„Það hefur verið magnað að fylgjast með örum vexti Endor undanfarin ár og við hjá Lenovo erum hæstánægð með samstarfið. Við höfum mikla trú á framtíð Endor og sjáum í félaginu traustan og öflugan samstarfsaðila í krefjandi verkefnum til framtíðar. Sérhæfing Endor er fágæt og það er mikil eftirspurn meðal stórfyrirtækja víða í Evrópu eftir þjónustu við ofurtölvur og við sjáum mikil tækifæri í sambærilegum verkefnum hjá okkar viðskiptavinum,” segir Karl Hansen, sölustjóri Lenovo í Skandinavíu.

„Þetta er frábær viðurkenning og góð viðbót við aðrar sambærilegar sem Endor hefur fengið á skömmum tíma. Félagið er ungt og hefur vaxið hratt undanfarin ár. Við höfum átt frábært samstarf við Lenovo í viðamiklum verkefnum og þessi viðurkenning blæs frekari vind í seglin og það er mikil tilhlökkun að halda áfram að vinna í spennandi verkefnum með þeim víðar í Evrópu,” segir Gunnar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Endor.

Mynd (frá vinstri): Karl Hansen, sölustjóri Lenovo í Skandinavíu, Rick Koopman, tæknistjóri Lenovo í Evrópu, Gunnar Guðjónsson, Július Pálssson og Guðbrandur Sigurðsson frá Endor, Fabio Gallo, sölustjóri Lenovo í Evrópu og Anil Thapa, hönnuður í ofurtölvuteymi Lenovo.

Endor ehf.

Eyravegur 37

800 Selfoss

512 4600