Endor og Landsbókasafn afrita íslenska internetið

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur samið við Endor um kaup á diskastæðu og hýsingu á öllu íslensku efni á internetinu. Samningurinn er tvíþættur, annars vegar kaupir Landsbókasafn diskastæðu og hýsingu hjá Endor þar sem íslenska internetið er vistað, og hins vegar hýsir safnið afrit af þeim gögnum í EC Storage lausn Endor.

EC Storage er gagnageymsluský sem byggir á sömu tækni (object storage) og alþjóðleg stórfyrirtæki notast við, til dæmis má þar nefna Facebook, Google og Spotify. Íslenska internetið er hýst í þremur öflugum gagnaverum sem staðsett eru á mismunandi stöðum um landið, og eru gagnaverin tengd saman með háhraða 10 Gb/s tengingum til að tryggja að gögn séu sífellt að færast á milli staða sem skilar hámarksuppitíma og öryggi.

Edda G. Björgvinsdóttir, fjármálastjóri og sviðsstjóri rekstrar hjá Landsbókasafni Íslands: „Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn gegnir mikilvægu varðveisluhlutverki og varðveitir gögn fyrir Íslendinga samkvæmt lögum um skylduskil. Landsbókasafn safnar til dæmis afritum af öllu íslensku vefefni, vefsafn.is, og útbýr stafræn afrit af útgefnum tímaritum, timarit.is, svo eitthvað sé nefnt. Við leggjum mikla áherslu á öryggi okkar gagna og Endor gerir okkur kleift að hámarka öryggi, hagkvæmni og skilvirkni í okkar rekstri“.

Davíð Þór Kristjánsson, framkvæmdastjóri sölusviðs Endor: „Það er mikil ábyrgð sem fylgir því að afrita og halda utan um íslenska internetið og við hjá Endor erum mjög ánægð og spennt fyrir þessu mikilvæga samstarfi við Landsbókasafnið“.

Frá vinstri: Davíð Þór Kristjánsson frá Endor, Bergsteinn Gunnarsson og Edda G. Björgvinsdóttir frá Landsbókasafni.

Endor ehf.

Eyravegur 37

800 Selfoss

512 4600